2 comments
Published mánudagur, janúar 30, 2006 by Lavi.
Helgin liðin og leið hún við leti og afslappelsi. Allveg búinn að sjá að eina leiðin til þess að eyða helgum er við rúmstokkinn, með fullt af bókum og hæfilegan skammt af íþróttaleikjum í sjónvarpinu. Tók mig þó til og þreif dálítið fyrir Spúsu í gær.
Túskildingurinn var góð skemmtun í alla staði. Byrjuðum í Kjallaranum í mat sem var ótrúlega góður og þjónustan var til fyrirmyndar. Reyndar er búið að banna reykingar í húsinu sem þýðir að þetta var trúlegast í síðasta skiptið sem ég kem í Þjóðleikhúskjallarann. Sýningin var mögnuð. Hver leikarinn öðrum betri þó að stjarna sýningarinnar sé óumdeilanlega Lavi Egilsson. Fór hann hamförum sem Makki hnífur bæði lárétt og lóðrétt. Enduðum síðan kvöldið með góðu leikhússpjalli yfir ostum og ónýtum bjór hjá Sigríði á Barmi.
Nú er aðeins einn dagur eftir í kosningu janúarmyndar í
ljósmyndasamkeppninni. Þrátt fyrir þó nokkra yfirburði framan af hefur Lavi mist öruggt forskot með lélegum leikkafla niður í jafntefli við Gweldu eins og staðan er núna. Hvet ykkur til að kjósa....
Annað var það ekki í bili.......................
0 comments
Published föstudagur, janúar 27, 2006 by Lavi.
Einu sinn var gömul kona í lest á leið heim til sín. Ekki að það sé í frásögur færandi en það sem gerði þessa gömlu konu þess virði að færa má sögur af henni í letur er að hún hafði anlitslýti sem maður sér nú ekki á hverjum degi. Og ef anlitslýti er ekki tilefni sögusagnar þá veit ég ekki hvenær er tilefni til sögusagna.
En hvað um það.
Dóttir mín lagði af stað í bítið til Akureyrar í keppnisferðalag. Ekki laust við að gamlar minningar um rútuferðir og flug í íslenskri vetrarfærð komi upp í hugann. Tútturnar, en það er félagsskapur kvenna í kringum mig, hafa haft miklar áhyggjur af ferðalögum sem þessum og sérstaklega þegar snjó kyngdi niður fyrir nokkrum vikum. Ég hef hins vegar sagt að þegar maður búi á Íslandi þá sé nauðsinlegt að búast við því að sitja í snjóskafli jöfnum höndum um æfina. Það herði mann og geri að íslending.
Hætti reyndar við sjálfur að fara norður þar sem ég nennti nú eiginlega ekki að keyra í vetrarfærð til Akureyrar. Var ekki fyrr búinn að tilkynna dóttur minni að ég myndi ekki koma með en það skall á með vori.
Spúsa er búin að panta steinsmugu til þess að koma og búa til gat í vegg einn í eldhúsi voru. Verð að segja að ég er frekar glaður þegar Spúsa mín tekur svona af skarið enda tel ég að þetta séu endanleg endalok hugmynda hennar varðandi flutning í önnur sveitarfélög. Ætlum sem sagt að opna inn í geymsluna og útbúa þar skrifstofu aðstöðu og afþreyingarherbergi fyrir húsbóndann og jú Spúsan fær líka þar inni. Er mikið að hugsa til þess að framlengja eldhúsinnréttinguna og láta einhverskonar opnanlegan skáp loka innganginum í herbergið. Finnst kúl að vera með falið rými í íbúðinni.
Ferðin í leikhúsið um daginn kveikti á löngu gleymdum áhuga ( eða í það minnsta lömuðum) fyrir leikhúsi. Ég og Spúsa höfum nú troðið okkur inn í leikhúshóp Dísu mákku og er fyrsta leikhúsheimsóknin í kveld. Ætlum að sjá
Túskildingsóperuna í Þjóðleikhúsinu.
Byrjum á mat í Kjallaranum og síðan upp í menninguna.
Minni á að nú líður(greyið) að lokum
kosningar á mynd janúarmánaðar. Þegar þetta er skrifað hefur mynd Lava Hammers ótvíræða forystu með 40% atkvæða og get ég svarið að ég hef einungis kosið einu sinni.
Annað var það ekki........
1 comments
Published mánudagur, janúar 23, 2006 by Lavi.
Ég hef alla tíð verið frekar hræddur við tannlækna. Innst í huga mér hljómar alltaf "Nú auðvitað er þetta sárt, þetta er antík" þegar kemur að því að fara til tannlæknis. Það hefur því oft verið svo að förinni er frestað sem aftur leiðir til þess að ég hef komið mér upp mikilli þekkingu verkja í munnholi. Ég ákvað hins vegar að taka mér taki þegar ég frétti af því að fyrrum skólafélagi minn tæki til í tanngörðum samferðamanna sinna. Og nú er ég búinn að setja upp plan til úrbóta og mun hitta tannlækninn jöfnum höndum á næstu mánuðum. Fór í fyrsta skiptið í dag og fékk yfirferð í hreinsun tannsteins meðan hann tók stöðu mála í holum. Það skemmtilega við þetta allt saman er að verðið fyrir þessa þjónustu er mun viðráðanlegra en hjá þeim sem áður hefur komið við í munni mínum.
Annað var það ekki......
0 comments
Published laugardagur, janúar 21, 2006 by Lavi.
Þá er skilafrestur vegna Ljósmyndasamkeppni Lava í Janúar runninn út og innsendar myndir til sýnis á
síðu keppninar.
0 comments
Published fimmtudagur, janúar 19, 2006 by Lavi.
Og nú liggur maður heima í bæli.
Hefði jöfnum höndum ekki setið við vördinn og bloggað nema kannski út af hissun minni í garð fjölskyldu og vina sem sýna ekki svo mikið sem flís af áhuga fyrir skemmtunum sem boðið er uppá. Þar á ég að sjálfsögðu við hina ansi skemmtilegu Ljósmyndasamkeppni sem ég átti allt eins von á að yrði skemmtileg tilbreyting í grámyglu hversdagsleikans. Verandi í fjölskyldu sem í gegnum tíðina hefur státað sig af því að hafa óvenju gott auga fyrir ljósmyndun þá verð ég að segja að viðtökur og þáttaka hefur ollið vonbrigðum. Nú þegar aðeins einn dagur er eftir af fyrsta skilafrest hefur aðeins ein mynd borist í keppnina og það er mín mynd. Það eru engin aldurstakmörk og skemmtilegt að leyfa yngri kynslóðinni að taka þátt.
(Bætt inn seinna)Var ekki fyrr búin að setja umkvartanir mínar hér inn en fyrstu myndir bárust mér. Alltaf gott að ath. í pósthólfið áður en farið er að rífa kjaft. En betur má ef duga skal svo upp upp mín þjóð og drífa sig í að senda inn myndir.
0 comments
Published miðvikudagur, janúar 18, 2006 by Lavi.
Enn á ný minni ég á ljósmyndakeppnina. Nú eru aðeins 2 dagar eftir í skilafrest og miðað við innsendar myndir þá má gera ráð fyrir að þetta verði
sigurmyndin fyrir janúarmánuð. Þið munið að þemað er vetur og myndina má senda á
steinrikur@simnet.is
3 comments
Published mánudagur, janúar 16, 2006 by Lavi.
Nohh, þá er kominn mánudagur enn á ný. Eftir að hafa legið yfir bók fram undir morgunn lá ég andvaka og datt niður í hugsanir um að nú væri maður trúlegast c.a. hálfnaður með lífsgönguna. Varð frekar "díprest". Veit ekki hvað það var sem tryggaði þessar hugsanir og þó hún Svava vinkona leit við í kaffi í gærkvöldi og sagðist verða 42. á miðvikudaginn og síðan áttaði ég mig á því að 16. janúar hefur skotið upp kollinum og það þrátt fyrir að jólin hafi verið í gær. Þetta jafnaði sig fljótlega þar sem ég er ekki of vanstilltur maður að eðlisfari og held ég að ég hafi sofnað eftir c.a. 2 andvöku mínútur.
Annars er helgin búin að vera viðburðarrík.
Fór með Spúsum, Dísusystrunum hennar og Eiríki í leikhúsið á föstudagsköldið. Sáum nýtt leikrit, "Glæpur gegn diskóinu", eftir ungt veilskt skáld að nafni Gary Owen. Ég var svo heppinn að Eiríkur kom að vinnslu sýningarinnar og bauð hann mér og Spúsu. Verkið er frábært. Hádrama þar sem tekið er á málefnum sem allir kannast við á einhvern hátt. Að minnsta kosti höfðu allir einhverja skoðanir og sögur í frumsýningarpartýinu sem okkur var síðan boðið í. Vill benda þeim konum sem ég þekki er vinna við borgarleikhúsið að, þrátt fyrir að ég hafi kvartað jöfnum höndum yfir því að þær skuli ekki muna eftir mér, littla bróður þeirra, þegar kemur að því að bjóða í leikhúsið þá hafi ég mikklu meiri áhuga en t.d. Gwelda. Það er sem sagt karmenn 1998 útskriftarárgangs leiklistarskólans sem standa að sýningunni og eru þeir hver öðrum betri í verkum sínum. Fullt hús hjá Steypibaðsfélaginu Stút segi ég nú bara eins og gagnrýnandi
Lesbókarinnar.
Á laugardaginn var síðan haldin heljarins veisla hjá Gweldu í tilefni af fimmtugsafmæli og komu Önnu frænku frá Amríku. Gwelda er góð heim að sækja eins og við Frussungar þekkjum og býður einatt uppá gæðameðlæti. Að þessu sinni lagði ég þó til glás. Ásamt foreldrum mínum gerðum við hlé á veisluhöldum um 19:30 og héldum til Kópavogs þar sem árlegir Nýárstónleikar Salarins voru haldnir. Það er kemmst frá því að segjast að tónleikarnir voru einstaklega vel heppnaðir og mamma grét. Sem og karl faðir minn sem sat seinna um kvöldið dasaður og yfir sig hrærður. Fyrir þá sem misstu af þessu má benda á
þetta.
Sunnudagur leið síðan við létta endurkomu í Leifsgötunni í meðlætisafgöngum og glás. Þegar heim var komið lagði ég mig sem aftur á móti þýddi að ég kláraði bókina sem ég talaði um í byrjun.
Fyrir linka þyrsta bendi ég á:
Þennannþennannog
þennann.
Minni á að nú eru aðeins eftir 4 dagar þangað til skilafrestur vegna ljósmyndasamkeppninar rennur út.
Þemað er
vetur og myndina má senda á
steinrikur@simnet.isAnnað var það ekki í bili.
3 comments
Published fimmtudagur, janúar 12, 2006 by Lavi.
Hef tekið eftir því undanfarna daga að það er mjög vinsælt að setja saman lista yfir þetta og hitt. Bestu bækurnar, bestu plöturnar, bestu bíómyndirnar, bestu atburðir o.s.fr. Ég er að velta því fyrir mér að setja saman einhverskonar lista og hvet lesendur mína til þess að koma með hugmyndir af listum sem gaman væri að fá Steinríkinn til að hafa skoðun á.
Sat við eldhúsborðið í kvöld og heyrði óminn af sjónvarpinu. Það var sem sagt verið að tala við Gabríelu nokkra sem sjálfskipaðir menningarvitar og snobbhanar hafa sett á stóran stall. Hún gekk í gegnum verk sitt með Þorsteini J og lýsti því sem fyrir bar og hvað lá á baki þegar listsköpunin varð að veruleika. Eftir ótrúlegan fjölda af "Meðan laufin sofa....." gat ´´eg ekki orða bundist. " Þetta er nú ljóta djöfuls kjaftæðið". Ég veit ekki hvaða verk þetta var og miðað við vídeóverkið sem hún sýndi á listahátíðinni sl. sumar í samvinnu við manninn sem nuddaði tippinu á sér við drifskaft, þá held ég bara að ég vilji ekki vita það. En sem sagt mér finnst Gabríella vera týpiskt dæmi um íslenska lágmenningu. Listamaður sem er hæpaður upp af fjölmiðlum og nýríkum íslendingum er ekki túkallsins virði.
Og þá fæ ég hugmynd lista.
5 ofmetnustu listamenn íslendinga
1. Gabríella Friðriksdóttir (Það er ekki list að maka sig með blóði úr dauðri kind).
2. Stefán Máni (maður verður ekki rithöfundur þó að það standi í símaskránni).
3. Garðar Thor Cortes (Álíka kreistinn rödd og vel notuð tannkremstúpa. Platan hans var valin plata ársins á Bylgjunni, common)
4. Daníel Ágúst
5.
Listinn verður kláraður fyrr en seinna.
Undur og stórmerki gerast enn. Ég var að borða kotasælu og fannst hún bara þokkaleg undir tönn.
Annað var það ekki.........
2 comments
Published þriðjudagur, janúar 03, 2006 by Lavi.
03.01.2006
Ja, ekki byrjar það vel.
Ákveðnum til- og fyrirgreiðslum varðandi mig hefur verið slegið á frest af vinnuveitendum mínum þangað til að Gilitrutt vinur Gweldu kemur úr fríi. Það er víst ekki hægt að taka sjálfstæðar ákvarðanir nem Gilitrutt gefi grænt ljós. Ástandið er orðið slíkt að yfirmaður minn er að gefast upp. Er farinn að leita sér að nýrri vinnu og ætlar að segja upp. Og hvað gerir maður þá? Ég er ekki viss um að ég sé tilbúinn til þess að taka upp þráðinn á ný með nýjum manni. Hver veit nema að maður fari að hugsa sér til hreyfings líka. En maður gerir þó ekkert að óhugsuðu máli.
Ég missti tönn um jólin og burðast nú með gat í munni sem minnir á almannaskarð á góðum degi. Skarðið orðið uppfullt af allskyns góðgæti svo sem Kalkún, hamborgarhrygg, nautakjöti og meðlæti. Þótt gott sé að geta nartað í afganga milli mála er ég nú samt að spá í að panta tíma hjá tannsa sem fyrst. En maður gerir þó ekkert að óhugsuðu máli
06.01.2006
Annars hef ég verið að finna fyrir mikilli þörf hjá mér nú á nýju ári til framkvæmda. Við höfum endanlega gefið flutninga upp á bátinn þrátt fyrir skrautlegar uppákomur á efri hæðinni. Eins og áður hefur verið
póstað þá tók fyllibyttan á efri hæðinni sig upp og flúði til Amríku. Sprautufíkillinn Rónabróðir fór hins vegar að venja komur sínar í íbúðina ásamt félögum. Það þótti því vera ástæða til gleði þegar fréttist af tilvonandi sölu íbúðarinnar. "Bara dagaspursmál hvenær skrifað verður undir" sagði frændinn sem sá um sölu íbúðarinnar, "já, og hún á að standa tóm og enginn að vera þar þangað til nýjir íbúar flytja inn". Urðum við því hissa einn morguninn þegar hljóð berast af efri hæðinni og eftir að hafa fengið staðfestingu frá frændanum seinna um daginn að enginn ætti að vera þar hringdum við í lögregluna og tilkynntum um umgang. Þegar við komum heim úr vinnu þann daginn var allt með kyrrum kjörum en rétt fyrir miðnætti hringir bjallan og stendur þar bróðirinn ásamt tveimur frekar skuggalegum mönnum. "Gúlp" hugsaði ég. "Ég frétti að það hefðuð verið þið sem hringduð og kvörtuðuð í lögregluna". "Gúlp, gúlp" hugsaði ég í þetta skiptið. "Ég vildi bara koma og biðjast afsökunar á framferði mínu í dag" sagði hann um leið og félagarnir tveir lögðu af stað upp á efri hæðina. "Ég var bara svo sár yfir því að allt skyldi fyllast hér af löggum þrátt fyrir að ég væri hér í fullum rétti. Ég bara missti mig allveg. Frændinn hefur ekkert leyfi til þess að selja þessa íbúð og systir mín er búin að gefa mér þessa hluti sem eru þar". Um leið og hann sleppti þessum orðum heyrði ég félaga hans brjóta upp glugga með snöggum hvelli. Datt ekki í hug að reyna standa í vegi fyrir félögunum og afsakaði mig á því að ég hefði einungis verið að hugsa um systur hans og hann sjálfan en þar sem hann væri greinilega í fullum rétti þá þyrfti hann ekki að hafa áhyggjur af því að ég skipti mér að þessu í framtíðinni. Enda stóð það á endum á innan við 10 mínútum var búið að bera út í sendiferðabíl ískáp, eldavél, sjónvarp tölvu og allt fullt af öðrum hlutum sem greinilega er hægt að koma í verð. Og síðan voru þeir farnir. Nokkrum dögum seinna hitti ég frændann sem var mættur á staðinn, greinilega enn að selja íbúðina og lét ég hann vita af því að hann væri í órétti og bróðirinn væri sá sem hefði völdin. Svo hlóum við og hann sagðist skilja mig en eins og áður hefði verið rætt þá ætti þessi íbúð að vera mannlaus og síðan festu þeir gluggan enn á ný. 10. mínútum eftir að frændinn fór rak ég augun í bróðirinn sem var á leið inn um gluggan klifjaður innkaupapokum úr Bónus eins og ekkert væri eðlilegra. Hústökubróðirinn hefur síðan alið manninn á efri hæðinni síðan þá ýmist með sprautuvinunum eða börnunum sínum (sem komu og gistu hjá honum a.m.k. 2 daga yfir jólin. Börnin voru reyndar að mestu ein þar sem hann var staddur, að þeirra sögn þegar ég kom upp til þess að kanna hávaða kl. 1:30, í næstu blokk í heimsókn. Þá var mér nóg boðið. sagði krökkunum c.a fjögurra, sex og átta ára, að hætta þessum látum og koma sér í rúmið. Ákveðinn í að gera lögreglu og barnaverndayfirvöldum viðvart daginn eftir til þess að hræða ekki krakkana með lögreglu um miðja nótt(ég veit auðvitað átti ég að hringja strax). Daginn eftir var hustökuliðið hins vegar á bak og braut og daginn þar á eftir voru mætti menn sem hreinsuðu restina af eigum og drasli út úr íbúðinni. Okkur til mikilliar gleði fóru að berast annarskonar læti að ofan nú í morgunn. Nýjir eigendur eru byrjaðir að gera upp íbúðina og fytja vonandi inn sem fyrst. Í gleði minni var ég næstum hlaupinn upp með nýbökuð rúnstykki til þess að bjóða þau velkomin en hélt aftur af mér og ákvað frekar að skora stig hjá Spúsu og vakti hana með morgunmat í rúmið. Maður gerir jú ekkert að óhugsuðu máli.
Eins og glöggir lesendur hafa tekið eftir þá hefur Steinríkurinn nú breytt útliti síðunnar. Vonast ég til að breyting þessi muni bæði gleðja lesendur og verða þeim til eggjunar í daglegu amstri.
Annað var það ekki..........
1 comments
Published mánudagur, janúar 02, 2006 by Lavi.
"Gleðilegt ár og takk fyrir það gamla" æpti spúsa á mig í gegnum sprengingarnar. "Ha!, já einmitt, takk sömuleiðis" sagði ég og smellti á hana einum snöggum en stökk síðan af stað til þess að halda áfram að sprengja. Ég er nefnilega dálítið mikið fyrir sprengjur skal ég segja ykkur. Sá áhugi hefur reyndar minnkað sl. ár vegna anna um áramót. Hönk við staurinn undanfarin 4 áramót en ekki núna. Nei eins og þið vitið þá ég er nefnilega hættur að hönkast, að eilífu, Amen. En ég var semsagt í fríi og var ákveðinn í að endurnýja kynni mín við sprengjur. Við áttum enn allar stóru bomburnar frá því í fyrra og ég ákvað að bæta við einni góðri tertu sem ég gat fengið á góðum prís. Þegar hún var sótt var mér hinsvegar tilkynnt að hún væri í boði ákveðins fyrirtækis sem ég hef ljáð hendi á sl. ári og var því sprengt fyrir samtals 0 kr. um þessi áramót. En fínt var það fírverkið skal ég segja ykkur.
Og síðan var skálað og sungið fram undir morgunn. Nýja árið sem sagt byrjaði með miklu blasti á allan mögulegan máta. Við skulum bara vona að það boði gott.
Meira seinna.....