Föstudagurinn langi
Published föstudagur, apríl 14, 2006 by Lavi | E-mail this post
Ekki myndi ég nenna að láta krossfesta mig í dag. Það er nefnilega skítakuldi og rok á Íslandi. Typical haust einhvern veginn þannig að í staðinn ætla ég að blogga pínulítið, lesa blöðin, hlusta á Jesú krist súperstjörnu (sem ég geri alltaf á þessum degi)og undirbúa matarboðið sem ég ætla að halda í kvöld.
"I am gay and I am red, Johnny is back in town" sagði í gömlum dægurlagatexta og má segja að sama eigi við mig þessa dagana. Spúsa er til baka frá London með fermingarbarnið alsæla. Dóttir mín náði sem sagt þeim merka áfanga í lífi sínu að láta taka sig í fullorðinna manna tölu nú um daginn.
Fermingargjöfin frá foreldrunum var útlandaferð og brugðu þær mæðgur undir sig betri fætinum og heimsóttu London nú í síðustu viku. Kom klifjaðar til baka í fyrrinótt með fullar töskur af ýmiskonar varningi sem fjárfest hafði verið í, ekki síst á einhverjum pönkaramarkaði. Unglingurinn alsæll með ferðina og hefur nú á þessum síðustu vikum fullorðnast mjög.
Á meðan skerptum við feðgar á umgengnisreglum heimilisins (ef það er enginn til þess að taka til eftir mann þá verður maður að gera það sjálfur) og höfðum það ekki minna gott heldur en mæðgurnar.
Hvolparnir eru smátt og smátt að breytast í hunda og nú líður að því að við förum að leita að nýjum heimilum fyrir þá. Askja er nú þegar komin með nýja foreldra en Esja, Katla og Hekla bíða enn. Ef einhver hefur áhuga fyrir því að eignast nýjan fjölskyldumeðlim þá mæli ég með Esju.
Eins og glöggir hefa tekið eftir hér á síðunni þá var árshátíð haldin með pompi og prakt hjá starfsmönnum Kópavogsbæjar og gekk hún vonum framar. Reyndar svo vel að nú þegar hefur verið sett ný dagsetning fyrir næsta ár. Allir í skýjunum yfir ballinu og fengum við sem stóðum að þessu stóra plúsa. Það verður samt ansi erfitt að toppa þetta. Fyrir ykkur sem lesið mig í Kópavoginum er næsta uppákoma, Vorgóugleði, grímuball í féagsheimilinu einhvern tíman í enda maí.
Annars er ég sjálfur á leið til Spánía eftir rétt rúma viku en meira um það seinna.
Annað var það ekki..........
0 Responses to “Föstudagurinn langi”
Leave a Reply