Af líkamlegu ástandi hluta.......
Published mánudagur, september 26, 2005 by Lavi | E-mail this post
Það er til skemmtileg saga af Spúsu minni þegar hún hitti saumaklúbbinn sinn eftir 6 mánaða samband við sinn nýja mann. Eftir að hafa sporðrennt vel útilátnu saumaklúbbssnakkinu bar hún fíngerða hendina að munni sér og ropaði pent. Baðst síðan innilegrar afsökunar. Þögn sló á hópinn og síðan sprakk saumaklúbbsgerið í setningum eins og "hvað hefur hann eiginlega gert þér!"´, "það er af sem áður var, brussa!" og þ.h.
Nú myndi kannski einhver spyrja sig að því hvers konar "My fare lady" ástand var í gangi fyrstu mánuðina hjá okkur en þeir sem hins vegar þekkja mig vita að þetta hafði ekkert með mig að gera. Ég er nú af þessari fjölskyldu sem hefur ropað og rekið við þegar það hefur hentað. Það er nefnilega engin synd þó að búkurinn leysi vind, spyrjið þið bara Hófí.
En annars var þetta ekki það sem ég ætlaði að tala um þótt hugleiðing mín tengist vissulega sama svæði. Ég þjáist nefnilega þessa dagana af Rassspasma. Skellti mér á körfuboltaæfingu á miðvikudagskvöldið og tókst að fara með bakið á mér sem aldrei fyrr. Var nokkuð góður í byrjun en ótrúlega vel útfærð leikflétta endaði með smelli í bakinu. Svaf ekkert þá nóttina og bar mig frekar aumlega hjá Villa sjúkraþjálfa daginn eftir. Villi hefur nú bannað körfubolta þangað til meðferð lýkur hjá honum. En aftur að rassspasmanum. Þegar maður hefur stingandi verk í mjóbaki herðir maður ósjálfrátt alla vöðva í kringum verkinn og þegar maður reynir of mikið á vöðva fær maður strengi og harðsperrur. Spasmo glutus maximum heitir þetta á læknamáli eða hringvöðvaharðsperrur upp á móðurmálið. Þið getið rétt ímyndað ykkur hve úttektir á IFÖ-inum eru þægilegar þessa dagana. Spasminn lýsir sér á þann máta að ég er með stöðugan seiðing frá mjóbaki niður í lær og með jöfnu millibili herpast vöðvar líkt og kröftugur sinadráttur sé í vændum. Á ég þá einskis annars úrkosta en að halla mér fram á við í aumkunarverðri tilraun til þess að teygja vöðvann. Spasmi sem þessi gengur yfirleitt yfir að mestu á 5-10 sekúndum en kostulegur er ég á meðan því stendur. Var til dæmis staddur í Europris með Spúsu um helgina þegar skyndilegt spasmakast heltist yfir mig. Ekki gaman að vera innan um ókunnuga þegar maður upplifir sinadrátt í görninni skal ég segja ykkur.
En hvað um það, þeim verður að svíða sem undir míga sagði Frú Sigríður og á það vel við þessa dagana.
Íðorðdagsins er:
beta-nýrilviðtakagerandefni
Annað var það ekki í bili.
hahahahahahaha