3 comments
Published þriðjudagur, ágúst 22, 2006 by Lavi.
"Hvernig finnst þér þetta?" spurði hún og snéri sér í hringi frammi fyrir vinkonu sinni. Sú sat áhugalaus og virtist ekki hafa neinar sérstakar skoðanir á gæðum eða útliti peysutuskunnar sem vinkonan var að máta. Þegar betur var að gáð mátti þó sjá grettu í andliti hennar í hvert sinn sem sú er mátaði snéri baki í hana. "Nú hvernig finnst þér?" ítrekaði mátstúlkan og nú með heldur meiri þjósti í röddinni. "Ha, jú bara flott" svaraði sú skoðanalausa en fyrir mig sem horft hafði á grettuna var greinilegt að henni gat ekki staðið meira á sama. Greinilega orðin hundleið á því að vera stödd í Kringlunni á versta tíma.
Ég var hins vegar vanur. Kann orðið á trixin sem þarf til þess að komast í gegnum venjulega mátunar- og verslunartúr án þess að Spúsa verði ofsalega þreytt á því að eiga svona leiðigjarnan mann. Fara með í fyrstu búðina, sýna áhuga og umfram allt passa sig á því að geispa ekki. Í næstu búð, sem undantekningalaust er skóbúð hristir maður hausinn lítið eitt og læðir út setningum eins og "áttu ekki nóg af stígvélum elskan mín?" eða "ég held að stígvélakvótinn sé uppurinn (ansi er þetta skemmtilegt orð) fram til 2010".
Í framhaldinu er gott að dæsa lítið eitt og lauma að hugmynd hvort maður ætti kannski bara að fara og fá sér kaffisopa. "Jú, elskan mín viltu ekki bara gera það". Óbrigðult....
Ég var sem sagt sendur á kaffihúsið meðan Spúsa og únglíngurinn skoðuðu, spáðu og spekúleruðu. Sat einn með kaffið og flunkunýja skrifblokk fyrir framan mig, tilbúinn til að semja ódauðlegt ljóð eða jafnvel skemmtilega smásögu, þegar ég rak augun í Gweldu og Flísu Sveimhugamóður og var ég ekki lengi að bjóða þeim til borðs. Voru þær stöllur við brullupsfatakaup og hafði gengið vel. Hélt ég þeim að spjalli dágóða stund og greinilegt var að þeim þótti mikið til um hvað ég hafði fram að færa í því spjalli. Það stóð þó ekki lengi því Spúsa mætti með Únglínginn og var þá eins og við manninn mælt að ég gleymdist og kvennaskarinn sameinaðist í skoðun á innihaldi plastpokanna.
Þegar staðið var upp fr´borðinu tjáði Spúsa mér hún þyrfti að fá mig með í verslun þar sem Únglíngurinn hefði tekið frá flík og þyrfti á láni frá föður sínum að halda fram að útborgunardegi. Í stað þess að ganga beint að afgreiðsluborði og reiða fram það fé er þurfti fyrir flíkinni voru þær mæðgur skyndilega komnar að fatahengjum og teknar til við að spá og spekúlera á ný. Ég tillti mér niður á stól og dæsti. "Hvernig finnst þér þetta?" spurði Spúsa og snéri sér í hringi frammi fyrir mér. "Úff, hvað ætli klukkan sé eiginlega orðin" hugsaði ég og gretti mig lítið eitt í hvert skipti sem Spúsa snéri í mig bakinu. "Nú hvernig finnst þér?" ítrekaði Spúsa og nú með heldur meiri þjósti í röddinni. "Ha, jú baraflott" svaraði ég.
Annað var það ekki......
Ég er svo sem löngu kominn til baka en hef ekki haft það í mér að setjast við vördinn við skriftir. Enda er það svo að heimsóknum á þessa síðu fer hríðfækkandi. Ég sé þó að einhverjir eru enn að kanna hvort ég sé kominn til baka og hafa þeir nú hlotið sérstakan heiðursess í Frægðarhöll Steinríksins. En hvað um það ég er sem sagt búinn í sumarfríi. Það fór fram eins og við var að búast og var of stutt.
Þann 8. september er ég að fara spila á forláta grímudansleik fyrir dansi. Hef ég því legið yfir söngbókum og öðru slíku þar sem ekki þýðir að bjóða fólki upp á efnisskrá Ólafíu, svo maður tali nú ekki um Svarthöfðann. Þætti vænt um ef þið legðuð hönd á plóginn með því að koma með uppástungur af lögum í commentakerfinu.
Tók aðeins til í linkum í dag og setti inn nokkrar síður sem ég les daglega. Bendi sérstaklega á
Lavann en þar er á ferð skemmtilegur frístundaphotoshoppari.
Annað var það ekki.....
0 comments
Published þriðjudagur, ágúst 01, 2006 by Lavi.
Þegar maður er í sumarfríi er maður ekki að eyða tímanum í blogg. Betra að gera það í vinnunni.
Annað var það ekki......